Í leikskólanum er unnið eftir Aðalnámskrá leikskóla sem kom út árið 2011. Í aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla 2011 er í fyrsta sinn gerð grein fyrir sex grunnþáttum í íslenskri menntun. Þeir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir ná til starfshátta, inntaks og námsumhverfis og eiga að stuðla að samfellu í skólakerfinu. Allir þessir þættir endurspeglast í okkar daglegum verkum.

Læsi:

Öll börn í leikskólanum fara í skipulagða málörvunartíma og samverustundir. Þar er áherslan að vinna útfrá læsisþáttunum, hljóðkerfisvitund, ritun, orðaforða, hlustunar/lesskilningi, lesfimi og umskráningu. Mikil áhersla er lögð á orðaforða sem er mikilvægur grunnur fyrir lesskilning seinna meir. Til að efla markvisst orðaforða er unnið á öllum deildum með aðferð sem nefnist Orðaspjall.

Sjálfbærni:

Markmið með sjálfbærni er að við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að skila jörðinni ekki í síðra ástandi en við tókum við henni og gera okkur grein fyrir hvernig hegðun okkar getur haft áhrif á umhverfið. Gefnarborg er Grænfánaskóli síðan 2008 sem merkir að leikskólinn er þátttakandi í alþjóðlegu verkefni sem vinnur að því að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum.

Heilbrigði og velferð:

Markmiðið með heilbrigði og velferð er að hlúa að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð barna og starfsfólks. Í leikskólanum er lögð áhersla á jákvæðan skólabrag, hollt mataræði, hvíld og góða hreyfingu. Leikskólinn Gefnarborg hóf þátttöku í verkefninu Heilsueflandi leikskóli á vegum Embættis landlæknis á skólaárinu 2016 - 2017. Heilsueflandi leikskóla á vegum Embættis landlæknis er ætlað að styðja leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana að hluta af daglegu starfi leikskólans.

Lýðræði og mannréttindi:

Markmið með lýðræði og mannréttindum er að allir einstaklingar fái notið sín á eigin forsendum, að hæfileikar hvers og eins fái að blómstra og allir finni að þeir geta haft áhrif. Lögð er áhersla á að börnin læri að bera virðingu fyrir margbreytileika mannkynsins, sjálfum sér, öðrum og umhverfinu í kringum sig. Öllum börnum líði vel og finni að þau eru velkomin og þau geti leikið og hlegið á sínum eigin forsendum. Á skólárinu 2016 - 2017 var ákveðið að leggja grunninn að gera fjölmenninguna enn sýnilegri í okkar daglega skólastarfi og byrjað að innleiða nýja hugmyndafræði sem nefnist Linguistically Appropriatee Practice (LAP). Hugmyndafræðin er frá Kanada og höfundur hennar heitir Roma Chumak – Horbatsch. Lykilþráðurinn í þeirri hugmyndafræði er að viðurkenna móðurmáls hvers og eins og að líta á það sem styrkleika fremur en veikleika.

Jafnrétti:

Í jafnrétti felst að allir hafi jafnan rétt óháð búsetu, fötlun, kyni, kynhneigð, litarhætti, lífsskoðunum, menningu, stétt, trúarbrögðum, tungumálum, ætterni eða þjóðerni. Í leikskólanum er lögð áhersla á að allir geti tekið virkan þátt í samfélaginu, hafi sama rétt og að öll börn hafi aðgang að sama kennslu-, náms- og leikefni. Við lítum á margbreytileikann sem tækifæri og með því mikla fjölmenningarstarfi sem fram fer í leikskólanum er stuðlað að því að allir hafi sama rétt og sömu tækifæri. Í daglegu starfi er börnunum kennt að bera virðingu fyrir hvert öðru og að ekki séu allir eins. Í leikskólanum er frjálsum leik gefinn góður tími en þar geta allir fundið leikefni við sitt hæfi.

Sköpun:

Sköpun er mikilvægur þáttur í tjáningu, frelsi og sköpunargáfu barna. Lögð er áhersla á að skapa umhverfi sem eflir fjölbreytta sköpun bæði úti og inni. Við leggjum áherslu á að börnin fái fjölbreyttan efnivið og læri meðhöndlun ýmissa áhalda. Við leggjum áherslu á að börnin nýti vettvangsferðir til að sækja sér efnivið út í náttúrunni og vinni síðan út frá sínum eigin hugsunum með þann efnivið.