news

Málið okkar - horft til framtíðar

15 Sep 2020

Kæru foreldrar/forráðamenn!

Á þessu hausti 2020 eru leikskólarnir í Suðurnesjabæ að hefja sérstakt átak í samstarfi við talmeinafræðinga á vegum sveitarfélagsins. Markmiðið er að efla enn frekar málþroska barnanna okkar og undirbúa þau fyrir læsi. Áhersla verður lögð á að vinna með tvö meginþemu þar sem ýmis önnur verkefni og spil tengd málþroska verða í brennidepli. Næstu mánuði munum við vinna skipulega á hverju tveggja vikna tímabili að ákveðnum verkefnum.

En leikskólinn þarf á ykkur að halda. Til að árangurinn verði sem mestur verðið þið að fylgja okkur heima í málörvuninni svo barnið ykkar fái endurtekningu og útskýringar með orðum á íslensku og því tungumáli sem talað er heima.

Á hverju tímabili er mikilvægt að þið vinnið með okkur og kennið barninu ný orð sem tengjast þessu orðaforðaþema í ykkar tungumáli. Þá megið þið benda á orð sem byrja á þeim bókstaf sem við leggjum áherslu á í hverju tímabili. T.d. með M hljóðið er auðvelt að finna nafn sem byrjar á þeim bókstaf, finna stafinn í bók sem þið eruð að skoða og lesa, benda á skilti með bókstafnum o.s.frv.

Fyrstu ár barnsins eru mikilvæg til að leggja grunn að málþroska og það skiptir máli að tala mikið við börnin, spá í orð, lífið og tilveruna. Fjöldi rannsókna sýnir að gott atlæti og örvun á fyrstu árunum í lífi barna skiptir verlegu máli fyrir framtíðarmöguleika þess. Tökum höndum saman kæru foreldrar. Takið þátt í þessu mikilvæga verkefni með okkur. Saman náum við enn meiri árangri í málþroska barnanna okkar sem skiptir sköpum fyrir vitsmunaþroska og síðara nám og starf á lífsleiðinni.

Leikskólastjóri og starfsfólk Gefnarborgar

Bryndís Guðmundsdóttir og Hjördís Hafsteinsdóttir talmeinafræðingar